Saga Dýralæknafélags Íslands

Brynjólfur Sandholt tók saman 2001


Saga Dýralæknafélags Íslands og baráttan fyrir bættum kjörum dýralækna er svo samtvinnuð dýralæknalöggjöfinni og þróun dýralækninga að vart verður hjá því komist að fjalla um alla þessa þætti þegar ágrip að sögu félagsins er tekið saman. Hér mun verða reynt að gera nokkur skil þeim þáttum sem hæst hafa borið í starfi félagsins og fleytt hefur félagsmönnum fram til þeirrar stöðu sem dýralæknar hafa í þjóðfélaginu í dag.

 

STOFNUN FÉLAGSINS

Óljóst er hver upprunalegi hvatinn var að stofnun Dýralæknafélags Íslands en ekki er fjarri lagi að álykta að koma tveggja nýútskrifaðra dýralækna til landsins um sumarið1934 hafi átt þar drjúgan þátt.  Þar með fjölgaði dýralæknum á Íslandi um 50 % eða í sex talsins. Öllum starfandi dýralæknum landsins var um haustið boðið til fundar í Reykjavík og eins og segir í fyrstu fundargerð félagsins var Dýralæknafélag Íslands þá stofnað.

 “Föstudaginn þ. 7. september 1934 komu dýralæknarnir  á Íslandi, en þeir voru sex talsins, saman til fundar á Hótel Borg í Reykjavík  til þess að halda með sér dýralæknafund. Segir svo í fundargerðinni að fyrsta mál sem liggi fyrir fundinum sé að stofna félagsskap með dýralæknum landsins.Var félagið síðan stofnað og nefnt  Dýralæknafélag Íslands. Fyrsta stjórn félagsins var þannig skipuð: Sigurður E. Hlíðar, formaður, en meðstjórnendur þeir Hannes Jónsson og  Jón Pálsson.
 
Í fyrstu lögum félagsins segir að tilgangur félagsins sé:

a. að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum íslenskra dýralækna.
b. efla samhug og viðkynni stéttarinnar.
c. mæta á opinberum vettvangi fyrir hönd íslenskra dýralækna.
d. auka faglega þekkingu meðlima með fræðsluerindum, umræðum o. fl.

Meðlimir geta allir þeir orðið sem lokið hafa háskólaprófi í dýralækningum og starfa að dýralækningum á Íslandi.  Atkvæðisrétt á fundum hafa þó þeir einir sem hafa
íslenskan ríkiborgararétt.”

Dýralæknum fjölgaði hægt á næstu áratugum sem rekja má til þess að atvinnumöguleikar voru litlir og fagið höfðaði kannske ekki til þeirra sem hófu nám á háskólastigi á þeim tíma. Einnig setti síðari heimsstyrjöldin strik í reikninginn þar sem dýralæknanám var eingöngu mögulegt að stunda við erlenda háskóla og svo er reyndar enn. Dýralæknum tók fyrst að fjölga á sjötta áratugnum og á 25 ára afmæli félagsins voru starfandi dýralæknar hér á landi 17 talsins þar af var ein kona sem þótti sérstakt á þeim tíma. Á næstu árum fjölgaði dýralæknum lítið bæði vegna aukins námskostnaðar af völdum sífelldra gengislækkana og atvinnutækifæri byggðust enn að miklu leyti á framboði á störfum í opinbera geiranum. Ríkið var ekki ginnkeypt fyrir því að auka fjárveitingar til dýralækninga enn frekar en orðið var, sérstaklega þar sem nú hafði náðst jákvæður árangur í baráttunni við hina skæðu sauðfjársjúkdóma sem bárust til landsins á fjórða áratugnum. Það er ekki fyrr en upp úr 1970 sem dýralæknum tekur að fjölga að marki 

Fjöldi starfandi dýralæknar hér á landi hefur verið sem hér segir 
 1940    6
1950    9
1960    18
1970    20
1980    36
1990    74
2000    86
2010   119 (51 karlar og 68 konur)


Í dag (2010) eru 130 dýralæknar búsettir hér á landi. Af þeim eru 48 í störfum hjá ríki og sveitarfélögum (30 karlar,18 konur),  57 eru sjálfstætt starfandi dýralæknar (13 karlar,44 konur), 9  hjá einkafyrirtækjum(5 karlar, 4 konur). 5 við önnur störf (3 karlar, 2 konur) og 11 eru eftirlaunaþegar (11 karlar). Við störf erlendis eru 31 íslenskir dýralæknar. Eftirtektarvert er að nú í dag eru 68 konur við dýralæknisstörf hér á landi eða um 57 % af starfandi dýralæknum. Á síðustu 5 árum hafa 2 af hverjum 3 dýralæknum sem útskrifast verið konur og þetta hlutfall virðist fara vaxandi. Sambærilegrar þróunar gætir einnig víðast hvar erlendis.

Af þeim dýralæknum sem eru starfandi hafa 8 dýralæknar lokið doktorsprófi og 20 dýralæknar fengið viðurkenningu til að kalla sig sérfræðinga. Sérgreinarnar fjalla um smádýralækningar, hrossalækningar, nautgripa- og sauðfjársjúkdóma, alifugla-sjúkdóma, fisksjúkdóma, heilbrigðiseftirlit með afurðum sláturdýra og faraldsfræði dýrasjúkdóma. Af þessari upptalningu má sjá að íslenskir dýralæknar hafa verið framsæknir og fylgst vel með í sínu fagi á undanförnum árum enda hefur viðurkenning á dýralæknismenntun og  störfum dýralækna farið stöðugt vaxandi meðal þeirra sem þurfa á þjónustu dýralækna að halda.

Sjá nánar Ágrip af sögu dýralækna

mánudagur 18 febrúar 02 2019
Nýjustu fréttir
Yfirlýsing fagráðs um velferð dýra vegna máls Brúneggja...
Yfirlýsing frá Dýralæknafélagi Íslands 2.desember...
Silja Unnarsdóttir, Kristbjörg Sara Thorarensen, Helga Høeg...

Dýralæknatal, búfjársjúkdómar og saga

fæst hjá DÍ 3000 kr (dyr@dyr.is)

Atvinnuauglýsingar

Dýralæknastofa Dagfinns leitar að dýralækni í smádýrapraksís. Fullt eða hlutastarf kemur til greina.

 Upplýsingar í síma 5523622.

eða netfangi gauja@dagfinnur.is

Dýraspítalinn í Garðabæ óskar eftir að ráða afleysingardýralækni.

Um er að ræða frá áramótum og til 1. september 2018.

Stöðugildið er 100%. Reynsla skiptir ekki öllu máli en mikilvægt er að viðkomandi tali og skilji íslensku eða sé með mjög góða enskukunnáttu.

Dýraspítalinn í Garðabæ er rótgróinn spítali sem eingöng sinnir smádýrum.

Nánari upplýsingar fást með að hafa samband við undirritaða Hanna M. Arnórsdóttir dýralæknir hanna@dspg.is Jakobína Sigvaldadóttir dýralæknir bina@dspg.is Björn Árnason framkvæmdastjóri  bjorn@dspg.is