Hvað er framundan hjá okkur héraðsdýralænum?

 

Í janúar sl. skrifaði ég hugleiðingu um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn. Talsvert vatn hefur runnið til sjávar síðan, og hef ég þess vegna breytt því sem ég skrifaði í janúar, en mig langar engu að síður að koma þessum hugleiðingum mínum á framfæri.

Við lestur frumvarpsins/frumvarpanna er ég fyrst og fremst að skoða greinarnar sem snerta dýralækna. Í frumvarpinu, sem Einar K. Guðfinnsson(EKG) lagði fram voru  ákvæði til bráðabirgða, sem ekki eru lengur inni í  frumvarpi Jóns Bjarnasonar (JB). Í frumvarpi JB er eins og það liggur nú fyrir gert ráð fyrir að frá og með maí 2011 verði sex héraðsdýralæknar á landinu og þeir sinni eingöngu eftirlits- og stjórnunarstörfum,  þessi embætti verða sambærileg við þau sem í daglegu tali okkar dýralækna kallast „súperhérar“. Annað er óljóst, nema gert er ráð fyrir að þeim héraðsdýralæknum sem starfa hjá MAST í dag verði ekki sagt upp, heldur boðin önnur störf hjá stofnuninni.

Í frumvarpi EKG var bráðabirgðagreinin nr. 41 sem ég tel að hafi verið hugsuð til að veita tíma til að aðlaga regluverkið að dýralæknaþjónustunni (eða öfugt)., þar sagði m.a. í skýringum Miklu skiptir að við þessar breytingar á starfsemi héraðsdýralækna um landið sé tryggt að þjónusta sem þeir veita dýraeigendum verði jafngóð og áður. Þetta á sérstaklega við í dreifðari byggðum þar sem ekki eru sjálfstætt starfandi dýralæknar.“

Hvar eru sjálfstætt starfandi dýralæknar utan núverandi svæða „súperhéranna“?  Jú, Bárður er á Húsavík,  Eyrún Arnardóttir á Egilsstöðum vinnur með Hirti, lýkur náminu væntanlega á þessu ári. Edda er í Borgarfirðinum.

Er líklegt að sjálfstætt starfandi dýralæknar hefji störf á landsbyggðinni í því ástandi sem nú er?  Hvað halda þeir sem til þekkja um það?

Í frumvarpi EKG  virtist stefnan sú að þeim dýralæknum sem ekki verða héraðsdýralæknar bjóðist að vera eftirlitsdýralæknar og fái að stunda praxís jafnframt, þótt þetta komi hvergi greinilega fram, en gæti orðið í reglugerð. Hugsanlega fram til 2013.

Getur verið að  EKG hafi stefnt að því að breytingum yrði frestað til 1. nóv 2013?? Sem sagt að veita 5 ára aðlögunartíma?  Það er a.m.k. hægt að túlka 41. greinina  þannig og þá breytist fjöldi umdæma og svæðaskipting ekki fyrr en þá.  Reyndar er talað um að hægt sé að gera breytingarnar í áföngum, en eru einhver svæði núna, sem myndu fá fullnægjandi þjónustu án þeirra héraðsdýralækna sem þar eru nú? 

Það vekur athygli að í frumvarpi JB er þessari grein til bráðabirgða breytt, og sá hluti sem er feitletraður hér að ofan felldur út.  Það þýðir í raun, að frá maí 2011 verða starfandi 6 héraðsdýralæknar í landinu, sem ekki mega sinna neinum lækningum.  Þeim 10 sem þá eru eftir og missa núverandi störf sín á að bjóða aðra vinnu hjá MAST. Ekkert kemur fram um hver hún á að vera, eða hvar.

Í frumvarpi JB hljóðar 41. grein þannig:      Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:     Störf héraðsdýralækna hjá Matvælastofnun eru lögð niður við gildistöku þessara laga. Viðkomandi starfsmönnum skulu boðin störf hjá Matvælastofnun. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gildir ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði.
    Ráðherra er heimilt að fela héraðsdýralækni að sinna tímabundið almennri þjónustu við dýraeigendur á tilteknu svæði ef heilbrigði eða velferð dýra er stefnt í hættu enda fáist ekki dýralæknar til að sinna slíkri þjónustu við dýraeigendur á umræddu svæði. Heimild ráðherra samkvæmt þessari málsgrein fellur úr gildi 1. nóvember 2013.

 

Og ekki tekur betra við ef maður les skýringar við 41. grein:

Hér er um að ræða ákvæði til bráðabirgða. Vegna breytinga á umdæmum héraðsdýralækna er gert ráð fyrir að öll núverandi stöðugildi héraðsdýralækna við Matvælastofnun verði lögð niður en þau eru sextán í dag. Hins vegar er kveðið á um að starfsmönnunum skuli boðin störf hjá Matvælastofnun og að ekki þurfi að auglýsa þau störf skv. 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Gert er ráð fyrir því að sex dýralæknum verði boðin störf héraðsdýralækna í sex nýjum umdæmum en allt að tíu dýralæknum boðin störf eftirlitsdýralækna eða önnur störf hjá Matvælastofnun.
    Ráðherra er heimilt að leyfa héraðsdýralækni að sinna almennri þjónustu við dýraeigendur á tilteknu svæði ef heilbrigði eða velferð dýra er stefnt í hættu enda fáist ekki dýralæknir til að sinna slíkri þjónustu við dýraeigendur á umræddu svæði. Hér er um að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu að héraðsdýralæknum sé óheimilt, vegna hagsmunatengsla, að sinna almennri dýralæknaþjónustu í sínu umdæmi. Eftirfarandi skilyrði eru sett fyrir framangreindri heimild. Í fyrsta lagi er það skilyrði að heilbrigði eða velferð dýra sé stefnt í hættu. Í öðru lagi er skilyrðið að dýralæknir fást ekki til þess að starfa eingöngu við almennar dýralækningar á svæðinu. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að heimild ráðherra verði tímabundin þar til viðeigandi lausn fæst. Það gefur augaleið að heimild ráðherra tekur einungis til dreifðari byggða landsins. Gert er ráð fyrir því að þegar skipting umdæma verður að fullu komin til framkvæmda verði ekki þörf á þessu ákvæði þar sem opinberir eftirlitsdýralæknar verða starfandi í öllum sex umdæmum héraðsdýralækna og munu sem slíkir sinna almennri dýralæknisþjónustu á viðkomandi svæði ef ekki fæst sjálfstætt starfandi dýralæknir í umdæmið.

  

Það sem ég hef merkt með gulri áherslu eru sérkennileg atriði, fyrst á að segja öllum upp, svo á að bjóða störfin,  6 héraðsdýralæknar og svo verða hinum 10  annað hvort boðin störf eftirlitsdýralækna eða önnur störf hjá stofnuninni.  Eftirlitsdýralæknirinn á líka að sinna almennri dýralæknisþjónustu ef enginn sjálfstætt starfandi fæst. Og svo þegar sjálfstætt starfandi dýralæknir vill hugsanlega koma inn á svæðið breytist allt, er það ásættanlegt?

Ég uppgötvaði, að 27. júlí kl 21,15 mælti ráðherra fyrir þessu frumvarpi. Hann rétt minnist á það sem snertir dýralækna í ræðu sinni, en telur að breyta þurfi á skemmri tíma en EKG hafði gert ráð fyrir, m.a. vegna krafna á MAST um sparnað. Fyrir þá sem vilja hlusta á umræðuna, er þetta slóðin: http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?lidur=lid20090723T211528&horfa=1

Er virkilega hægt að rökstyðja þessar breytingar með sparnaði? Hvað sparast? Á ekki að bjóða öllum störf áfram, og á ekki að halda vaktsvæðum að mestu óbreyttum?  Ég sé ekki neinn sparnað þarna sem skiptir máli.

Kollegi okkar, Sigurður Ingi Jóhannsson hélt þarna fínar ræður, málefnalegar og mælti af mikilli þekkingu á málaflokknum. Hann vakti athygli á umsögn Dýralæknafélags Íslands og sagði einnig að í frumvarpinu væri „laumufarþegi“ sem eigi enga skírskotun í tilskipun ESB, en það sé kaflinn um dýralækna. Ýmislegt sé þar til bóta, en annað varasamt, nefnir hann þar sérstaklega 39. grein frumvarpsins. Hann tekur í ræðu sinni undir áhyggjur stjórnar DÍ að ekki takist að manna dýralæknisþjónustu í dreifðum byggðum. Ég hver ykkur til að hlusta á Sigurð, hann ræðir marga fleiri þætti frumvarpsins á einstaklega greinargóðan hátt.

Þessar hugleiðingar mínar enda á því að mér finnst einboðið að rugga ekki bátnum frekar á óvissutímum, bændur eru í kreppu og ekki líklegt að þeir borgi sjálfstætt starfandi dýralæknum þau laun sem þeir þurfa nema kannski  í stærstu héruðum, þar sem hagkvæmni fjöldans er mikil og vegalengdir stuttar. Sem sagt í  þeim héruðum þar sem nú þegar eru sjálfstætt starfandi dýralæknar.  Ég tel þó líklegt að nauðsynlegt sé að greiða betur fyrir vaktir á þeim svæðum, því eflaust eru dýralæknar þar ekki ofhaldnir af launum sínum.

Ég tel skynsamlegt að halda núverandi kerfi óbreyttu varðandi dreifðar byggðir í  a.m.k í 5 ár meðan reynt er að aðlaga kerfið aðstæðum. Jafnvel að fá 10 ára aðlögunartíma. Ég túlka orðin dreifðar byggðir sem svo að það séu þau svæði sem nú eru með héraðsdýralækna sem auk eftirlitsstarfa sinna líka dýralæknisþjónustu.  Ég sé ekki annað en að ráðherra hafi leyfi til að setja reglugerð þar um, a.m.k. ef ég styðst við orð Sigurðar Inga sem sagði að kaflinn un dýralækna eigi enga skírskotun í tilskipun Esb.  

Eftir 5 eða 10 ár verða komin ný viðhorf.

 Alla vega hlýtur það að vera vilji löggjafans að veita þjónustu dýralækna um allt land, þó ekki væri nema vegna dýraverndar í víðum skilningi. Þá á ég við að lina þjáningar veikra dýra og líka að koma í veg fyrir illa meðferð á dýrum.

Eitt af því sem fram kom í ræðu Sigurðar Inga var að Ísland gerði kröfu um að sleppa reglum Esb um dýravelferð, og eru þær reglur ekki inni í þessu frumvarpi. Sérkennilegt.

Að mínu mati væri nær að einn starfandi héraðsdýralæknir í hverjum landsfjórðungi, til viðbótar við sk. súperhéra yrði skipaður til að skipuleggja eftirlitsstörf héraðsdýralæknanna, hann bæri ábyrgð á því í sambandi við yfirmenn MAST að skipuleggja eftirlitsstörf og leyfisveitingar starfandi héraðsdýralækna þannig að ekki væri hætta á hagsmunaárekstrum.

Verði aðeins 6 héraðsdýralæknar á landinu, sem ekki mega sinna praxís, heldur annist aðeins eftirlitsstörf,  fullyrði ég að stór svæði landsins verða án dýralæknisþjónustu. Sama gerist ef hróflað verður við vaktaþjónustu sem nú er í gildi, þokkalegar tekjur er nánast eini hvatinn fyrir landsbyggðardýralækna að vera á vakt allan sólarhringinn þegar þörf krefur.

Ekki er gott að átta sig á því hvernig yfirvöld hugsa sér að veita áfram dýralæknisþjónustu verði úr að héraðsdýralæknar á landinu verði 6. Þó sýnist mér margt benda til þess að hugsunin sé að  greiða sjálfstætt starfandi dýralæknum vaktagreiðslur til að þeir hafi einhver grunnlaun.  Mér finnst sú „lausn“ ótæk og tel víst að ómögulegt verði að fá dýralækna til starfa upp á þau býti.

Þessa punkta var ég búinn að skrifa í vetur, hef breytt þeim talsvert vegna nýja frumvarpsins, sem lagt var fram í sumar. Til að hafa einhver áhrif á dýralæknakaflann tel ég mikilvægt að rætt verði við ráðherra og ekki síður þingmenn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.

 Kannski getur ráðherra bara tekið kaflann um dýralækna  út og haldið honum að mestu óbreyttum frá því sem nú er, til að tryggja öllu landinu þessa þjónustu með þeim hætti sem hefur reynst vel í 70 ár, og er tvímælalaust hagstæðasti kosturinn fjárhagslega fyrir ríkið.  Síðan verði tekinn góður tími í að hugsa málin upp á nýtt,sé það mat manna að þess þurfi. Ekki er hægt að halda því fram að nauðsynlegt sé að breyta öllu, vegna niðurskurðar hjá Matvælastofnun.

 Þetta er orðið nokkuð langt mál hjá mér, en mig langar í lokin að lýsa yfir stuðningi við og þakklæti  fyrir grein Gunnars Arnar í Morgunblaðinu fyrir viku, þar tek ég undir hvert orð og í raun segir hann þar allt sem segja þarf um þessi mál.  Vonandi hlusta ráðamenn á hann.

kveðja

Hákon Hansson

mánudagur 25 júní 06 2018
Nýjustu fréttir
Yfirlýsing fagráðs um velferð dýra vegna máls Brúneggja...
Yfirlýsing frá Dýralæknafélagi Íslands 2.desember...
Silja Unnarsdóttir, Kristbjörg Sara Thorarensen, Helga Høeg...

Dýralæknatal, búfjársjúkdómar og saga

fæst hjá DÍ 3000 kr (dyr@dyr.is)

Atvinnuauglýsingar

Dýralæknastofa Dagfinns leitar að dýralækni í smádýrapraksís. Fullt eða hlutastarf kemur til greina.

 Upplýsingar í síma 5523622.

eða netfangi gauja@dagfinnur.is

Dýraspítalinn í Garðabæ óskar eftir að ráða afleysingardýralækni.

Um er að ræða frá áramótum og til 1. september 2018.

Stöðugildið er 100%. Reynsla skiptir ekki öllu máli en mikilvægt er að viðkomandi tali og skilji íslensku eða sé með mjög góða enskukunnáttu.

Dýraspítalinn í Garðabæ er rótgróinn spítali sem eingöng sinnir smádýrum.

Nánari upplýsingar fást með að hafa samband við undirritaða Hanna M. Arnórsdóttir dýralæknir hanna@dspg.is Jakobína Sigvaldadóttir dýralæknir bina@dspg.is Björn Árnason framkvæmdastjóri  bjorn@dspg.is